- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll og Þór Þorlákshöfn mættust í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld í 19. umferð Dominos-deildarinnar í körfubolta. Tindastólsmenn voru með yfirhöndina mest allan leikinn en Þórsarar voru ólseigir og sáu til þess að halda áhorfendum spenntum allt til loka sveiflukennds leiks. Lokatölur voru 83-76 og Tindastóll, Stjarnan og KR öll með 28 stig en Vesturbæingarnir eiga leik til góða.
Tindastólsmenn fóru vel af stað í fyrsta leikhluta og sérstaklega var Pétur að spila vel. Hann setti 14 stig á fyrstu tíu mínútunum og þ.m.t. ískaldan flautuþrist og staðan 26-18. Þórsarar komu sér inn í leikinn í öðrum leikhluta á meðan sóknarleikur heimamanna var frekar stirður. Ólafur Helgi Jónsson kom Þórsurum yfir, 38-39, með þristi en þá kom Björgvin sterkur inn hjá Stólunum og gerði átta stig á örfáum mínútum en hann og Helgi Viggós drifu heimamenn áfram á þessum kafla. Staðan í leikhléi 51-40.
Viðar minnti rækilega á sig á upphafsmínútum þriðja leikhluta, gerði átta stig og þar af voru tveir þristar, en Þórsarar gerðu vel í því að loka rækilega á leiðir Hesters að körfunni. Björgvin jók muninn í 20 stig, 71-51, þegar rétt rúmar tvær mínútur voru eftir og nú héldu stuðningsmenn Stólanna að Þórsarar væru búnir að grafa stríðsöxina. Því miður virtust leikmenn Tindastóls halda það líka því það var kæruleysisbragur á leik liðsins fram til loka leikhlutans og gestirnir minnkuðu muninn í þrettán stig og eygðu smá vonarglætu. Staðan 71-58.
Fyrri þristur Helga Margeirs og tvistur frá Björgvini breyttu stöðunni í 76-60 en þá varð sóknarleikur Stólanna óskaplega þvingaður og eins og stundum fóru leikmenn að spila við klukkuna í stað þess að sækja á körfuna og hvað eftir annað tapaðist boltinn eða sóknir enduðu með erfiðum skotum. Þórsarar klóruðu sig enn á ný inn í leikinn og þegar fjórar og hálf mínúta var eftir var staðan orðin 78-71. Seinni þristur Helga gaf andrými en Þórsarar svöruðu og staðan 81-74 þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Þórsurum tókst ekki að nýta sér meðbyrinn í lokin og Helgi Rafn gerði lokakörfu Stólanna og kórónaði þar með flottan leik sinn. Úrslitin 83-76.
Helgi var í toppstandi í kvöld, gerði 14 stig og dreif sína menn áfram þegar mestu skipti. Hann tók sjö fráköst og spilaði flotta vörn. Hester átti erfitt uppdráttar enda voru yfirleitt tveir til fjórir á honum þegar hann fékk boltann í teignum. Hann skilaði þó 12 stigum, níu fráköstum og varði fjögur skot. Pétur átti enn einn stjörnuleikinn, hann var stigahæstur með 19 stig, hirti átta fráköst og átti sjö stoðsendingar. Björgvin (17 stig / 7 fráköst) átti nokkra frábæra spretti í leiknum og sömuleiðis Viðar (14 stig) og báðir létu ekki sitt eftir liggja í vörninni.
Enn á ný var varnarleikur Tindastóls öflugur og gott að halda Þórsurum í 76 stigum. Stór þáttur í því var að halda Tobin Carberry í jarðfræðilegum tölum en hann endaði engu að síður stigahæstur með 24 stig en var orðinn ansi pirraður á athyglinni sem hann fékk hjá Tindastólsmönnum. Maciej Baginski, Halldór Grétar og Magnús Breki átti ágætan leik fyrir Þór sem stálu boltanum mun oftar en Stólarnir en heimamenn fráköstuðu talsvert betur. Bæði lið voru án sterkra leikmanna í kvöld.