- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastólsmenn heimsóttu Skallagrímspilta í Borgarnesi í gær í 20. umferð Dominos-deildarinnar. Reiknað var með hörkuleik, enda liðin í hörkubaráttu á sitt hvorum enda stigatöflunnar, og stuðningsmenn liðanna voru ekki sviknir. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann, Skallarnir yfirleitt með nauma forystu en á lokamínútunum reyndust Stólarnir sterkari og lönduðu góðum sigri í Fjósinu, 81-88.
Leikurinn fór vel af stað og leikmenn óspart hvattir áfram af dugmestu stuðningsmönnum landsins. Pétur og Hester fóru fyrir sínum mönnum í Tindastóli en í liði Skallagríms mæddi mest á Flenard Whitfield og Skagfirðingnum Sigtryggi Arnar Björnssyni. Um miðjan fyrsta leikhluta var staðan 11-11 og næstu mínútur voru heimamenni fyrri til að skora en Stólarnir jöfnuðu jafnharðan. Flautuþristur frá Arnari tryggði heimamönnum forystu, 26-23, þegar fyrsti leikhluti kláraðist. Hraðinn var svipaður í öðrum leikhluta og gangur leiksins á svipuðum nótum. Skallagrímsmenn náðu af og til 5-6 stiga forystu en Stólarnir komu til baka. Hannes Ingi átti ágæta innkomu, setti m.a. niður þrist og minnkaði muninn í 38-36 um miðjan leikhlutann. Staðan í hálfleik 50-44 fyrir heimamenn.
Það var ljóst að Israel Martin var ekki sáttur við að fá á sig 50 stig í fyrri hálfleik og því spurning hvort hann næði að tendra varnarviljann hjá sínum mönnum. Það tókst, en að vísu raskaðist sóknarleikurinn í kjölfarið og báðum liðum gekk nú heldur verr að finna körfuna. Þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var staðan 56-52 fyrir heimamenn. Helgi Margeirs hlóð í þrist til að fylgja eftir þremur vítum frá Magga Gunn eftir að Pétur hafði fengið sína fjórðu villu, en Helgi Viggós var einnig með fjórar villur þegar þarna var komið. Arnar kom Sköllum í 65-60 en Hester minnkaði muninn í þrjú stig áður en lokafjórðungur hófst.
Whitfield jók muninn í fimm stig en þristur frá Friðriki Stefáns og lay-up frá Hannesi jöfnuðu leikinn og nú fóru Skallar að skjálfa og Stólarnir náðu frumkvæðinu. Björgvin tróð og kom Tindastólsmönnum í forystu í fyrsta sinn síðan í fyrsta leikhluta. Nú Antonio Hester við keflinu hjá Stólunum og sá til þess að Stólarnir héldu sínu því í hönd fóru hrikalegar baráttumínútur þar sem allt var í járnum. Maggi og Arnar pipruðu körfu Tindastóls með 3ja stiga skotum en þau rötuðu ekki niður. Það var ekki fyrr en rúm mínúta var eftir að Pétur setti þrist og kom Stólunum í 77-82 og þar með misstu heimamenn móðinn. Pétur og Hester kórónuðu góðan leik sinn með vítaskotum en Flakerinn lagaði stöðuna fyrir Skallagrím með flauelsþristi.
Pétur var bestur á vellinum með 26 stig, sex fráköst og sjö stoðsendingar. Hester byrjaði vel en var minna áberandi í öðrum og þriðja leikhluta. Hann kom svo gríðarsterkur inn á lokakaflanum og var að stigahæstur í Fjósinu með 28 stig og 12 fráköst. Björgvin var líka góður og skilaði níu stigum en skotin voru ekki alveg að rata rétta leið. Þá gerði Hannes sjö stig. Í liði Skallagríms var Whitfield með 25 stig, Arnar 21 og Flake 15.
Næsti leikur er hér heima í Síkinu á sunnudaginn en þá kemur lið Grindavíkur í heimsókn. KR-ingar eru sem fyrr efstir í deildinni en Tindastóll og Stjarnan jöfn í 2.-3. sæti.