- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastólsmenn léku við Þór Þolákshöfn í Þorlákshöfn í gærkvöldi og máttu lítið við því að misstíga sig í toppbaráttu Dominos-deildarinnar. Eftir strembinn fyrri hálfleik voru Stólarnir síðan yfirleitt feti framar í jöfnum og spennandi síðari hálfleik og reyndust heimamönnum öflugri á síðustu mínútunum. Lokatölur 85-89 fyrir Tindastól.
Helgi Viggós hóf leik á því að setja þrist og jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar. Davíð Ágústsson fann fjölina sína snemma leiks fyrir heimamenn sem náðu smá forskoti um miðjan fyrsta leikhluta. Sóknarleikur Tindastóls var ágætur en skotin rötuðu ekki niður en troðsla frá Bjögga minnkaði muninn í 21-15 þegar tæp mínúta var eftir af leikhlutanum en Þórsarar nýttu lokasekúndurnar betur og staðan 25-16 þegar annar leikhluti hófst. Heimamenn gerðu fyrstu sjö stigin og voru skyndilega komnir með 16 stiga forskot, 32–16. Þá stigu Stólarnir upp í varnarleiknum og Hannes Ingi setti niður tvo þrista til að koma okkar mönnum inn í leikinn að nýju. Síðustu mínútur leikhlutans gátu heimamenn varla keypt sér körfu og Helgi Viggós fullkomnaði endurkomu Stólanna þegar hann kom liði sínu yfir, 37–39, rétt fyrir hlé, en Snorri Hrafnkelsson jafnaði leikinn fyrir hlé. Staðan 39–39 í hálfleik.
Hart var barist í síðari hálfleik og liðin skiptust á um að hafa forystuna. Þórsarar framan af skrefinu á undan en upp úr miðjum þriðja leikhluta setti Hannes enn einn þrist og síðan kom Axel Kára óvænt niður á gullæð og grýtti mestmegnis tómu gulli eftir það í körfu Þórsara. Fimm stigum munaði á liðunum að loknum þriðja leikhluta, staðan 59-64 eftir körfu og viðhangandi víti frá Davenport. Axel og Hester voru áberandi í upphafi fjórða leikhluta en Þórsarar héngu þó í gestunum og Davíð jafnaði leikinn 71–71 og Emil Karel kom Þórsurum yfir 74–73. Hester (2) og Axel (5) leiðréttu kúrsinn hjá Stólunum en enn og aftur komu heimamenn til baka og þeir jöfnuðu leikinn, 80–80, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Hester, sem sýndi flotta takta í leiknum, kom Stólunum aftur yfir og þristur úr horninu frá Viðari setti pressu á heimamenn og þeir náðu ekki að svara fyrir sig, enda vörn Stólanna til fyrirmyndar. Hannes gerði síðan tvær íleggjur eftir stoðsendingar frá Hester og staðan 80–89 þegar hálf mínúta var eftir. Þórsarar gáfust ekki upp en tíminn var of naumur og Stólarnir fögnuðu fínum sigri.
Þórsarar einbeittu sér að því að reyna að hafa hemil á Pétri og Hester sem verið hafa hættulegustu leikmenn Stólanna í fjarveru Sigtryggs Arnars, sem enn er meiddur. Þetta tókst Þórsurum sæmilega en fyrir vikið léku Axel og Hannes Ingi lausum hala og áttu báðir frábæran leik. Hester var þó stigahæstur í liði Tindastóls með 24 stig og hann hirti auk þess ellefu fráköst. Hannes skilaði 16 stigum, þar af fjórum þristum líkt og Axel sem var með 18 stig. Aðspurður á Vísi.is hvort hann gæti nú loksins fengið að láta ljós sitt skína þegar Sigtryggur Arnar sé út úr liðinu sló Axel á létta strengi og játaði því. „Nákvæmlega. Það er kominn tími til að það fái einhver annar að skjóta en þessi drengur. Ég hef ekki séð hann gefa boltann ennþá þannig að það er fínt að hann sé bara heima,“ sagði Axel léttur í bragði.
Emil Karel var stigahæstur Þórsara með 19 stig og síðan kom Davíð með 16. Framlag Þórsara var jafnt og þétt, allir þeir sem komust á blað með tíu stig eða meira, nema DJ Balantine II sem gerði aðeins fjögur stig – helmingi meira en í leiknum hér í Síkinu. Honum finnst örugglega ekkert gaman að lenda í vörn Stólanna.