- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Aðalfundur Aðalstjórnar Ungmennafélagsins Tindastóls fór fram mánudaginn 31. mars í Húsi Frítímans á Sauðárkróki. Þar fór fram hefðbundin dagskrá aðalfundar samkvæmt lögum félagsins.
Í opnunarávarpi formanns var farið yfir starfsemi félagsins á liðnu starfsári og lögð áhersla á mikilvægi öflugs sjálfboðaliðastarfs, víðtækrar þátttöku og samstöðu innan félagsins. Þá var jafnframt horft til framtíðar og ræddar áherslur næstu ára.
Á fundinum var samþykkt að halda árgjaldi félagsmanna óbreyttu og engar lagabreytingar voru gerðar að þessu sinni.
Stjórn endurkjörin
Áfram verður haldið með sömu stjórn og áður, en hún var einróma endurkjörin. Í henni sitja:
- Magnús Barðdal Reynisson, formaður
- Stefán Árnason, gjaldkeri
- Sigurlína Erla Magnúsdóttir, meðstjórnandi
- Guðlaugur Skúlason, meðstjórnandi
- Gunnar Traustason, meðstjórnandi
Styrkveitingar úr Minningarsjóði Rúnars Inga Björnssonar
Á fundinum voru veittir styrkir úr Minningarsjóði Rúnars Inga Björnssonar til efnilegra og dugmikilla iðkenda:
- Hallur Atli Helgason – körfubolti
- Emma Katrín – badminton
- Fjóla Indiana Sólbergsdóttir – hestamennska
- Klara Sólveig Björgvinsdóttir – körfubolti
- Jóhanna María Grétarsdóttir Noack – júdó
Starfsbikarinn til Viggós Jónssonar
Veitt var sérstök viðurkenning og starfsbikarinn fyrir óeigingjarnt og öflugt sjálfboðaliðastarf – og hlaut Viggó Jónsson þann heiður.
Viggó hefur um áratugaskeið verið lykilmaður í uppbyggingu íþróttastarfs á Sauðárkróki og hefur komið að fjölbreyttum verkefnum sem styrkt hafa starfsemi Tindastóls. Má þar nefna mikla vinnu við þróun og framkvæmdir á skíðasvæðinu í Tindastól, sem í dag býður upp á vandaða aðstöðu fyrir skíðaiðkun, og uppbyggingu frjálsíþróttarvallarins í bænum, sem er einstakur á landsvísu.
Auk innviðaverkefna var Viggó frumkvöðull í stofnun Tindastóls TV, sem ruddi brautina fyrir beinar útsendingar frá íslenskum körfubolta og hafði víðtæk áhrif á íþróttamiðlun landsins. Viggó hefur einnig verið ötull í alls kyns sjálfboðavinnu – hvort sem er við skipulag, fjáröflun eða verk eins og gluggaþvott – og á stóran þátt í daglegum rekstri félagsins.
Viðurkenningin og starfsbikarinn eru veitt fyrir einstakt framlag til íþróttastarfs í héraðinu og er það ljóst að Viggó á sterkan sess í sögu U.M.F. Tindastóls.