Proctor með 47 stig í sigurleik á Selfossi

Heimamenn voru skrefinu á undan í fyrsta leikhluta og voru yfir, 25-23, að honum loknum. Stólarnir hófu annan leikhluta vel og komust yfir, 25-31, en leikmenn FSu gáfu ekkert eftir og gerðu næstu níu stigin í leiknum og komust því yfir á ný. Þeir náðu sex stiga forystu rúmri mínútu fyrir leikhlé en hlutirnir geta verið skotfljótir að gerast í körfunni því Stólarnir nýttu síðustu mínútuna vel og gerðu 10 stig. Proctor, sem var í miklum ham í gærkvöldi og gerði 47 stig, byrjaði á að setja niður þrist, þá gerði Helgi Margeirs 2 stig áður en Ari Gylfason skilaði niður þristi fyrir FSu. En Proctor átti síðustu orðin í fyrri hálfleik því brotið var á honum í blálokin og í kjölfarið fylgdi tæknivíti á hinn brotlega og skilaði Proctor öllum fimm vítunum til síns heima. Staðan 50-51 í hálfleik.

Áfram hélt barningurinn í upphafi þriðja leikhluta en þegar tvær og hálf mínúta var liðin og staðan 56-58, hófst góður kafli hjá Tindastólsmönnum þar sem Pétur, Ingvi og Helgi Margeirs sýndu góða takta. Á fjögurra mínútna kafla höfðu heimamenn gert þrjú stig en Stólarnir 20 og staðan því skyndilega orðin 59-78. Eftir þetta var á brattann að sækja fyrir heimamenn en það var helst að villusöfnun gestanna gæfi þeim von um að komast inn í leikinn. Átján stiga munur var á liðunum þegar fjórði leikhluti hófst, staðan 66-84. Helgi Rafn var aldrei þessu vant í bölvuðu villubasli og kom lítið við sögu í leiknum, fékk sína fimmtu villu snemma í leikhlutanum og í kjölfarið fylgdu tvær 3ja stiga körfur frá Ara og minnkaði hann muninn í 13 stig, staðan 79-92. Darrel Flake og Proctor sáu um að gera síðustu stigin fyrir Tindastól en minnstur varð munurinn níu stig mínútu fyrir leikslok. Lokatölur 89-100 fyrir Stólana.

Sigur Tindastóls var kannski óþarflega strembinn en engu að síður hefur alltaf verið erfitt að sækja FSu heim. Þrír leikmenn Stólanna fengu 5 villur; þeir Helgi Rafn, Pétur Birgis og Friðrik Stefáns en Ingi Rafn og Proctor fengu 4. Alls fengu Stólarnir dæmdar á sig 32 villur en heimamenn 23. Liðin hittu bæði ágætlega fyrir utan 3ja stiga línu, um 35% hittni, en innan teigs var nýting Tindastólsmanna talsvert betri (57% gegn 42%). Lið FSu fékk hinsvegar 42 vítaskot í leiknum (settu 28 niður) á meðan Stólarnir fengu 19 (settu 14).

Antoine Proctor fór á miklum kostum í leiknum en hann gerði sem fyrr segir 47 stig og þar af 5/12 í 3ja stiga skotum og setti niður öll átta vítin sem hann fékk. Þá var hann með 10 varnarfráköst, fimm stoðsendingar og þrjá stolna bolta. Þá var Darrel Flake seigur að vanda og gerði 19 stig og tók sex fráköst og átti fjórar stoðsendiingar.

Stig Tindastóls: Proctor 47, Flake 19, Helgi Freyr 12, Pétur Birgis 11, Ingvi Rafn 6/10 fráköst, Friðrik Stefáns 3 og Helgi Rafn 2.