Tap í Sláturhúsinu

Tindastólsmenn sóttu ekki gull í greipar þeirra Suðurnesjamanna í Keflavík í kvöld. Eftir ágætan fyrri hálfleik og séns alveg fram í byrjun fjórða leikhluta, datt botninn úr leik okkar manna og þeir töpuðu 98-73.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, en okkar menn ávallt skrefi á undan. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21-23 og okkar menn í ágætum málum. Jafnt var svo í hálfleik 47-47. Þriðji leikhlutinn var í jafnvægi framan af og um hann miðjan var staðan 55-55. Þá komust Keflvíkingar í 60-55 og í kjölfarið klikkuðu okkar menn á þremur vítaskotum í röð. Þeir minnkuðu þó muninn í 62-60 snemma í fjórða leikhluta, en þá skildu leiðir og Keflvíkingar juku forskot sitt jafn og þétt og luku leik með 15 stiga sigri eins og áður segir.

Stór þáttur í tapi liðsins má finna í fráköstunum. Þar hreinlega völtuðu Keflvíkingar yfir okkar menn, tóku 54 fráköst á móti 38, þar af 16 sóknarfráköst. Það er ansi dýrt að gefa andstæðingunum 16 sinnum annað tækifæri til að skora.

George Valentine var stigahæstur með 18 stig auk þess að taka 10 fráköst. Næstir honum komu svo þeir Drew og Þröstur með 14 stig.

Tölfræði leiksins.

Röð liðanna í neðri hluta deildarinnar breyttist ekkert í þessari 17. umferð, þar sem öll liðin frá 8. sæti og niður úr töpuðu sínum leikjum. Tindastóll situr í 10. sæti, með 10 stig eins og KFÍ, tveimur stigum fyrir ofan ÍR og Fjölni sem sitja í fallsætunum og tveimur stigum minna en Skallagrímur sem er í 8. sætinu. Fyrir ofan þá er síðan Njarðvík með 16 stig. Eins og staðan er núna virðist sem barátta Skallagríms, KFÍ, Tindastóls, Fjölnis og ÍR verði svakaleg á lokakaflanum. Öll þessi lið eru í fallhættu en um leið í baráttu um 8. sætið í deildinni eins og staðan er núna. Fimm umferðir eru eftir og á Tindastóll aðeins eftir einn innbyrðisleik við þessi lið, gegn ÍR í næst síðasta leik tímabilsins. Þá eiga strákarnir eftir að fá Njarðvíkinga í heimsókn.

Leikirnir sem eftir eru;

25-02-2013 19:15 Tindastóll - Snæfell Sauðárkrókur
 
01-03-2013 19:15 Þór Þ. - Tindastóll Þorlákshöfn
 
07-03-2013 19:15 Tindastóll - Njarðvík Sauðárkrókur
 
14-03-2013 19:15 ÍR - Tindastóll Hertz Hellirinn - Seljaskóli
 
17-03-2013 19:15 Tindastóll - Grindavík Sauðárkrókur

Næsti leikur er sem sagt á mánudag þegar Snæfellingar koma í heimsókn. Það væri svakalega mikilvægt að taka þann leik og ná í tvö stig inn í lokabaráttuna. Nú ættu allir að leggja leið sína í Síkið og styðja strákana.