- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Í dag komu Júdóiðkendur Júdódeildar Tindastóls á Sauðárkróki, Hofsósi og Hólum saman og gerðu sér glaðan dag á lokahófi þar sem júdóiðkendur voru verðlaunaðir.
Hópurinn hittist í heimahúsi á Sauðárkróki og gerði sér glaðan dag þar sem grillaðar pylsur voru á borðstólnum fyrir iðkendur og foreldra. Trampolínið á staðnum fékk varla frí og nokkuð stór hluti gesta skemmti sér í ruðningsbolta þar sem kunnátta í júdó skemmdi ekki fyrir.
En einn af hápunktum dagsins var verðlaunaafhending framúrskarandi iðkenda yfirstandandi vetrar. Allir iðkendur fengu afhentan þakkarskjöld og svo voru veittir bikarar fyrir bestu mætinguna, mestu framfarirnar, efnilegustu júdókonu og júdómann og loks fyrir besta júdómanninn.
Jóhanna María Grétarsdóttir Noack fékk bikar fyrir bestu mætinguna enda hefur hún verið einstaklega dugleg að mæta á æfingar í vetur í bæði yngri og eldri hóp. Veigar Þór Sigurðarson fékk bikar fyrir mestu framfarirnar en hann hefur sýnt miklar framfarir í vetur og staðið sig vel á þeim mótum sem hann hefur tekið þátt í. Haukur Rafn Sigurðsson og Þóranna Ásdís Fjólmundsdóttir voru valin efnilegust en þau eru bæði mjög hæfileikarík og geta náð langt í íþróttinni með áframhaldandi ástundun. Besti júdómaðurinn var svo valinn Arnór Freyr Fjólmundsson en hann hefur sýnt það og sannað á þeim mótum sem hann hefur tekið þátt í vetur að hann er á meðal þeirra bestu í sínum flokki og er vel að þessum titli kominn.
Stjórn Júdódeildar Tindastóls óskar bikarhöfunum til hamingju með viðurkenningarnar og þakkar öllum iðkendum og foreldrum fyrir skemmtilegan og viðburðarríkan júdóvetur.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem Katharina Sommermeier tók á lokahófinu.