Tindastóll tapaði fyrsta leik tímabilsins fyrir Stjörnunni.

Menn tókust hraustlega í hendur fyrir leikinn, enginn þó jafn hraustlega og Hegraneströllið sem kreisti lúkur dómaranna svo fast að þeir fengu varla lit í hendurnar fyrr en þónokkuð var liðið á annan leikhluta.

Áhangendur heimamanna í Tindastól voru spenntir fyrir leik og ánægðir með að nýtt tímabil vona og væntinga væri að fara af stað. Ekki minnkaði ánægjan þegar Tindastóll skoraði fyrstu fimm stig leiksins. Stjörnumenn og þá sérstakleg Marvin Valdimarsson voru hins vegar fljótir að átta sig á hlutunum og skoruðu næstu átta stig. Stjörnumenn voru svo sterkari það sem eftir var fyrsta leikhluta og leiddu að honum loknum, 18 – 24.

Munurinn hélst þetta 6 – 8 stig framan af öðrum leikhluta en þegar leikhlutinn var hálfnaður ákváðu Tindastólsmenn að fara að spýta aðeins í lófana og söxuðu jafnt og þétt á forskot Stjörnumanna og fór það svo að í hálfleik var staðan jöfn, 38 – 38.

Þegar þarna var komið við sögu hafði stigaskorið dreifst á eftirfarandi leikmenn:
Tindastóll; Rikki 9, Helgi Rafn 8, George Valentine 6, Þröstur 5, Arnar 4, Isaac Miles 4 og Hreinn 2.
Stjarnan; Marvin 14, Brian Mills 6, Dagur Kár 6, Justin Shouse 6, Sæmundur 2, Guðjón 2 og Fannar 2.

Þriðji leikhluti var ekkert ósvipaður þeim fyrsta, Stjörnumenn sigu framúr og virtust Tindastólsmenn ekkert ráða við Marvin Valdimarsson. Marvin er skorunarmaskína og skoraði úr öllum skotum sínum í leikhlutanum. Sem betur fer fyrir Tindastól þá tók Marvin bara fjögur skot í leikhlutanum, skoraði átta stig en það var einmitt munurinn á liðunum fyrir síðasta leikhlutann, átta stig, 52 – 60.

Stjörnumenn byrjuðu svo fjórða leikhlutann af krafti og ætluðu greinilega ekki að hleypa Tindastólsmönnum inn í leikinn. Stjarnan náði mest 16 stiga forskoti rétt fyrir miðjan leikhlutann og slökuðu örlítið á eftir það. Tindastóll náði aðeins að ganga á lagið og minnkuðu muninn niður í sjö stig en lengra komust þeir ekki og lokatölur urðu 79 – 90.

Tindastóls liðið átti ágætis spretti inn á milli í þessum leik, en aðallega voru það tveir menn sem drógu vagninn. Helgi Rafn var með tvöfalda tvennu í leiknum, 20 stig og 10 fráköst og Rikki setti 16 stig. Báðir voru með góða skotnýtingu í leiknum, þá sérstaklega Helgi Rafn eða 67%.

Hjá Stjörnunni var það títtnefndur Marvin sem reyndist Tindastólsmönnum erfiðastur, skoraði 26 stig. Hann fékk þó góða aðstoð frá Justin Shouse sem setti 22 stig og svo var Dagur Kár mjög góður og setti 14 stig, gríðarlega spennandi leikmaður þar á ferð með stáltaugar eins og karl faðir hans; Jón Kr. Gíslason, var á sínum tíma.

 

Áhugaverðir punktar:

* Hjá Tindastól spiluðu 11 leikmenn og voru þeir allir komnir inn á í fyrsta leikhluta, yngstur þeirra var
   Pétur Rúnar Birgisson 16 ára.

* Teitur „twitter“ Örlygsson er vanur að fara á kostum á samskiptavefnum og hvet ég sem flesta til að
    að fylgjast með honum, @teitur11

* Fyrir þá sem voru aðdáendur Rokklinganna á sínum tíma má benda á að kona Marvins Valdimarssonar,
   Arna Björg Jónasdóttir, var á sínum tíma ofurkrútt í sönghópnum. Endilega kynnið ykkur málið frekar.
   http://www.youtube.com/watch?v=Cc7ikXoveSg&feature=relmfu

 

HS