Kkd. Tindastóls hefur framlengt samninga við þá Svavar Atla Birgisson, aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla og Ísak Óla Traustason, styrktarþjálfara meistaraflokks karla.
Svavar Atla þarf vart að kynna fyrir Tindastólsfólki, hann spilaði 344 leiki í Íslandsmóti í Tindastólsbúningi og er nánast samofinn sögu félagsins. Hann lagði skóna á hilluna vorið 2017 eftir tveggja áratuga feril. Svavar Atli hefur verið aðstoðarþjálfari mfl. kk síðan 2021 og er því öllum hnútum kunnugur. Það er gott að hafa slökkvuliðsstjórann á hliðarlínunni þegar það hitnar í kolunum í Síkinu.
Ísak Óli Traustason hefur einnig framlengt samning sinn við kkd. Tindastóls sem styrktarþjálfari mfl. kk. Er þetta annað tímabilið sem Ísak Óli er styrktarþjálfari mfl. kk. Ísak Óli er tugþrautarkappi og margfaldur Íslandsmeistari í tugþraut. Ísak Óli er með B.S í Íþróttafræði frá HÍ og M.ed gráðu í íþróttafræði. Það er því óhætt að segja að Íslandsmeistararnir okkar séu í mjög góðum höndum.
Daníel Þorsteinsson hefur verið ráðinn sem styrktarþjálfari mfl. Kvk og Körfuboltaakademíu FNV. Daníel er menntaður styrktarþjálfari frá ÍAK og hefur margra ára reynslu af einka- og hópaþjálfun. Daníel hefur verið duglegur að afla sér þekkingar á sviði þjálfunar til þess að geta boðið sínum iðkendum upp á góðar æfingar og æfingarprógrömm. Við bjóðum Daníel velkominn til starfa hjá okkur og það er nokkuð ljóst að mfl. er í góðum höndum í vetur.