- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll lék seinni leik sinn í forkeppni FIBA Europe Cup í kvöld þegar liðið mætti kósovóska liðinu BC Trepca. Trepca eru silfurhafar kósovósku deildarinnar og hafa tekið þátt í Evrópukeppni undanfarin ár.
Leikurinn í kvöld var barátta frá fyrstu mínútu og Tindastólsmenn sýndu strax að þeir ætluðu að selja sig dýrt. Barátta strákanna skilaði þeim verðskuldaðri 5 stiga forystu í hálfleik. Kósovóarnir byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og þjörmuðu að Tindastólspiltunum með sínum þekkta líkamlega styrk. Í fjórða leikhluta sigu þeir aðeins lengra fram úr og þá fóru einnig að sjást merki þess að annað liðið hafði spilað leik kvöldið áður en hitt var að spila sinn fyrsta leik í forkeppninni.
Strákarnir eyddu síðustu bensíndropunum í að reyna að vinna upp forskotið en þrátt fyrir hetjulega baráttu náðu þeir ekki að þjarma nógu mikið að þeim. Niðurstaðan var því 8 stiga tap, 69-77.
Callum Lawson var stigahæstur með 17 stig, Þórir Þorbjarnarson 16 stig, Sigtryggur Arnar Björnsson 13 stig, Pétur Rúnar Birgisson 8 stig, Adomas Drungilas 8 stig, Davis Geks 5 stig og Stephen Domingo 2 stig. Hér má sjá alla tölfræði leiksins.
Niðurstaða Tindastóls í þessari forkeppni er því einn sigur og eitt tap. Leikmenn liðsins unnu sér inn virðingu allra sem að þessu komu með framkomu sinni og baráttu. Auk þess vann liðið yfirburðarsigur í stúkunni þar sem stuðningur liðsins var eftirtektarverður og umtalaður. Sem fyrr sýnir Tindastóll að félagið sendir ekki bara körfuboltaleikmenn til leiks heldur heilt samfélag. Liðið getur gengið stolt frá þessari keppni, sem var frábær undirbúningur fyrir Subwaydeildina þar sem liðið hefur leik næstkomandi sunnudag 8. október á Álftanesi klukkan 19:15.