- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastólsmenn tóku rúntinn suður í Keflavík í gær og léku á alsoddi gegn gestrisnum heimamönnum. Leikurinn var hraður og skemmtilegur og lið Tindastóls mætti með fullan tank af baráttu og góðum liðsanda. Þeir höfðu yfirhöndina nánast allan leikinn og eftir að Hester varð frá að hverfa vegna meiðsla um miðjan annan leikhluta þá stigu menn bara upp og léku gestgjafana grátt. Lokatölu 88-97 fyrir Tindastól.
Leikurinn fékk fljúgandi start og eins og oft í Sláturhúsinu suður með sjó þá var skotið í akkorði. Skyttur heimamanna voru þó ekki með miðið alveg í lagi og vörn Tindastólsmanna var góð. Hester sýndi frábæra takta í sókninni og lék Cameron Forte oft grátt og hinum megin á vellinum þá lenti sá ágæti kappi í klónum á vígreifum Helga Rafni sem tók kappann þegar á leikinn leið og hengdi hann upp á snaga í anddyri Sláturhússins... Hann var í það minnsta geymdur á bekknum í fjórða leikhluta.
Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 16-22 og eftir tveggja mínútna leik í öðrum leikhluta var staðan 20-30 eftir þrista frá Caird og Arnari. Hester snéri sig síðan illa þegar tæpar 15 mínútur voru liðnar af leiknum, steig ofan á Þröst Leó og gat ekki stigið í fótinn eftir það. Vonandi verður kappinn ekki lengi frá því hann var kominn í hörkuform. Í næstu sókn gerði Magnús Már þrist fyrir Keflavík og minnkaði muninn í 30-32. Nú mátti búast við því að heimamenn gengju á lagið en í raun misstu þeir hausinn. Stólarnir með Arnar í banastuði leystu sóknarleikinn ágætlega settu niður hverja körfuna af annarri og í stað þess að nýta sér það að Hester var ekki lengur til staðar í vörn Tindastóls þá svöruðu Keflvíkingar með því að ætla að kafsigla Stólana með 3ja stiga skotum en hittu sem betur fer ekkert voðalega vel. Staðan 41-47 í hálfleik.
Síðari hálfleikur hófst með tveimur kærkomnum körfum frá Axel Kára og síðan sló Pétur Birgis eign sinni á fjórðunginn. Hann gerði 19 stig í röð fyrir Stólana og þegar hann loksins hætti þessu þá var staðan orðin 48-70. Eftir þetta límdi Reggie Dupree sig á Pétur þannig að hann fékk ekki mörg tækifæri það sem eftir lifði leiks en að loknum þriðja leikhluta var staðan 59-78. Það var ljóst að Keflvíkingar yrðu að halda áfram í 3ja stiga leiknum í fjórða leikhluta ef þeir ætluðu sér að bjarga andlitinu og þeir fóru nálægt því. Dupree fann fjölina sína og raðaði niður 3ja stiga skotum og Ágúst Orra datt í gírinn sömuleiðis. Stólarnir mjötluðu inn einni og einni körfu en Keflvíkingar minnkuðu forskotið. Þeir náðu að minnka muninn í sex stig, 88-94, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir og fengu færi til að minnka muninn frekar en víti frá Caird kom þessu í þriggja körfu leik og brekkan sú reyndist of brött fyrir Suðurnesjamennina.
Frábær liðssigur Tindastóls í baráttuleik tveggja af toppliðum deildarinnar og nú eru það Tindastóll og ÍR sem eru á toppnum með 10 stig að loknum sex leikjum. KR og Grindavík mætast í kvöld og þá gætu Vesturbæingar jafnað við Stólana og ÍR.
Sem fyrr segir var það liðsheildin og -andinn sem skóp sigurinn í gær öðru fremur. Þegar liðið varð fyrir því áfalli að missa sinn sterkasta manna af velli þá stigu aðrir upp. Arnar er náttúrulega stigavél en í gær léku Pétur, Axel og Helgi Rafn frábærlega. Helgi Rafn, sem var með átta stig, átta fráköst og fjórar stoðsendingar, tróð boltanum í körfu heimamanna eftir afar sérstaka varnartilburði Keflvíkinga og fagnaði að hætti hússins. Axel fór vel með skotin sín og skilaði 14 stigum og sex fráköstum og síðan var Pétur stigahæstur með 26 stig, sjö fráköst og 13 stoðsendingar. Stjörnuleikur þar. Aðrir skiluðu hlutverkum sínum vel og sigurinn sætur.
Næsti leikur Tindastóls er hér heima gegn Þór Þorlákshöfn næstkomandi fimmtudagskvöld.