- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastólsmenn héldu í Breiðholtið í gær og léku við spræka ÍR-inga í Dominos-deildinni. Reiknað var með hörkuleik eins og oftast þegar þessi lið mætast og sú varð raunin. Heimamenn höfðu þó undirtökin nánast allan leikinn en sigruðu hálf slappt lið Tindastóls sem á það til að sýna sínar verri hliðar í kjölfar jóla. Lokatölur 83-75 fyrir ÍR.
Jafnræði var með liðunum í blábyrjun leiks en þá tók Ryan Taylor flest völd á vellinum og hann, ásamt Sigurkarli Jóhannessyni, bjuggu til sæmilegt forskot fyrir heimamenn sem leiddu 25-13 þegar skammt var eftir af fyrsta leikhluta. Chris Caird, sem var kominn á parketið á ný, lagaði stöðuna fyrir Stólana með fimm stigum í röð en ÍR var yfir, 27-19, þegar annar leikhluti hófst. Nú löguðu Tindastólsmenn varnarleikinn en sóknin var ekki til að hrópa húrra fyrir. Þristar frá Sigtryggi Arnari og Pétri komu Stólunum vel inn í leikinn og skömmu fyrir hlé setti Hannes Ingi þrist og Pétur setti tvö af vítalínunni og staðan orðin 34-33. ÍR bætti við einu stigi fyrir hlé og staðan 35-33 í leikhléi.
Stólarnir héldu í við ÍR í byrjun þriðja leikhluta. Matthías Orri kom heimamönnum í 41-35 með þristi en Pétur svaraði að bragði en hann setti fimm þrista í leiknum. Stólunum gekk illa að sækja að körfu ÍR-inga og gerðu aðeins 11 körfur innan teigs (11/35) en hittnin var heldur skárri utan 3ja stiga línunnar (13/39). Sérstaklega var varakaninn, Brandon Garrett, daufur í dálkinn og var eiginlega átakanlega slakur. Á þessum kafla leiksins fengu Stólarnir mörg ágæt skotfæri en hittnin brást mönnum og lið ÍR gekk á lagið og fór mikinn síðustu mínútur þriðja leikhluta, breytti þá stöðunni úr 41-38 í 58-40. Axel Kára, sem hafði gengið illa að koma boltanum í körfuna, lagaði stöðuna með þristi og staðan 58-43 fyrir lokafjórðunginn.
Byrjunarliðsmenn Martins voru flestir á bekknum í upphafi fjórða leikhluta og varamennirnir náðu aðeins að hrista upp í leiknum. Fyrst gerði Garret einu körfu sína í leiknum og þristur frá Bjögga kom muninum niður í tíu stig. Sigurkarl, sem átti sennilega besta leik lífs síns í gærkvöldi, svaraði með þristi en þá loksins kviknaði á Sigtryggi Arnari sem hafði aðeins gert þrjú stig í leiknum fram að þessu. Næstu mínúturnar opnaðist leikurinn talsvert og á sjö mínútna kafli gerði kappinn 16 stig. Það dugði þó ekki til því ÍR-ingar náðu að halda forystunni með nokkrum ævintýrakörfum frá Hákoni Hjálmarssyni sem héldu Stólunum utan seilingar. Leikmenn Tindastóls komu sér inn í leikinn síðustu mínúturnar með góðri baráttu en lið ÍR var sterkari aðilinn í leiknum og fagnaði sanngjörnum sigri þegar upp var staðið.
Sem fyrr segir var það fyrst og fremst hittnin sem virtist ekki hafa fylgt Tindastólsmönnum í Breiðholtið. Það í raun náðist hvorki taktur í sóknar- né varnarleikinn í gær nema á stöku köflum og þeir voru of stuttir til að slá heimamenn út af laginu. Pétur átti ágætan leik og skilaði 17 stigum og fimm stoðsendingum og þá endaði Sigtryggur Arnar stigahæstur Stólanna með 19 stig og sjö fráköst. Axel reif niður átta fráköst en það verður að segjast eins og er að það voru ekki margir leikmenn Tindastóls sem áttu góðan leik í gær. Í liði heimamanna endaði Matthías Orri stigahæstur með 22 stig en Ryan Taylor gerði 21 stig og tók þrettán fráköst. Sigurkarl gerði 19 stig og er skráður með fullkomna skotnýtingu í leiknum.
Næsti leikur Tindastól er hér heima í Síkinu á sunnudaginn en þá koma Valsmenn í heimsókn. Áfram Tindastóll!