- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Um 650 manns mættu í Síkið í kvöld, margir langt að komnir, til að sjá þriðju viðureign Tindastóls og Grindavíkur í átta liða úrslitum Dominos-deildarinnar. Ljóst var að með sigri næðu Stólarnir að senda Suðurnesjapiltana í snemmbúið sumarfrí en lið Tindastóls hafði unnið fyrri leiki liðanna. Það var því næsta víst að gestirnir kæmu baráttuglaðir til leiks, staðráðnir í að framlengja einvígið. Leikurinn var æsispennandi og jafn, gestirnir oftar en ekki með frumkvæðið, en þegar leið að lokum þá reyndust Stólarnir sleipari á svellinu og unnu frábæran sigur, 84-81, og eru því komnir í undanúrslitin.
Bæði lið byrjuðu leik af krafti og strax var ljóst að nú átti ekki að gefa þumlung eftir. Stólarnir voru skrefinu á undan í byrjun, Hannes gerði tvær laglegar körfur, en Grindvíkingar náðu góðum kafla um miðbik fyrsta leikhluta, komust sex stigum yfir, 12-18, en undir lok leikhlutans náðu heimamenn að rétta úr kútnum með góðum þristum frá Axel og Arnari. Staðan 22-23 þegar annar leikhluti hófst. Grindvíkingar voru nú ákveðnari og Stólarnir voru ekki alveg á tánum í vörninni en þeir náðu alltaf ágætum áhlaupum sem urðu til þess að gestirnir náðu aldrei afgerandi forystu. Grindvíkingar komust í 24-32 en körfur frá Pétri og Arnari minnkuðu muninn og eftir troðslu frá Sigga Þorsteins svaraði Axel með tveimur þristum og Stólarnir komnir yfir, 35-34. Jafnt var á flestum tölum fram að hléi og eftir klaufaskap gestanna jafnaði Björgvin leikinn, 41-41, í þann mund sem flautað var til leikhlés.
Stólarnir máttu vera ánægðir með að fara með jafna stöðu inn í síðari hálfleikinn en þeir voru að hitta ágætlega. Grindvíkingar fóru betur af stað í upphafi þriðja leikhluta og komust í 43-49. Tveir þristar frá Arnari komu Stólunum í gírinn og skömmu síðar bætti Axel við fjórða þristinum sínum í sex tilraunum og nú var hreinlega slegist um alla bolta. Varnarleikur beggja liða var frábær og kappið upp á tíu. Friðrik Stefáns sýndi áræðni og gerði fimm stig á fínum kafla en staðan var 59-60 þegar fjórði leikhluti hófst.
Fljótlega kom Hester Tindastólsmönnum yfir en Dagur Kár svaraði að bragði. Þá gerði Viðar 3ja stiga körfu og stuttu síðar bætti Pétur við tveimur vítaskotum og staðan orðin 68-64. Þetta var í fyrsta skipti sem Stólarnir komust meira en tveimur stigum yfir í leiknum. Grindvíkingar tóku leikhlé og voru snöggir að jafna metin að því loknu. Arnar setti þá í þrist og Stólarnir héldu undirtökunum. Í stöðunni 73-72 braut síðan Siggi Þorsteins á Arnari í 3ja stiga skoti og kappinn var ískaldur á línunni og setti öll skotin niður. Aftur fjögurra stiga munur Stólunum í vil og aftur tók Jóhann Ólafs, þjálfari gestanna, leikhlé og aftur skilaði það árangri. Dagur Kár og Siggi Þorsteins gerðu næstu tvær körfur og jöfnuðu leikinn. Lokamínútan var síðan æsispennandi en næstu fjögur stig voru Stólanna og öll komu þau af vítalínunni. Fyrst setti Arnar bæði sín niður, þá Pétur eitt af tveimur og Hester sömuleiðis. Þá var staðan 82-78 og átta sekúndur eftir. Grindvíkingar brunuðu upp og Dagur Kár setti niður þrist og minnkaði muninn í eitt stig. Brotið var á Arnari um leið og Stólarnir tóku boltann inn og hann skilaði báðum skotum rétta leið þegar 1,4 sekúndur voru eftir og Grindvíkingar náðu ekki að koma boltanum á samherja áður en flautan gall.
Þetta var fimmti leikurinn gegn Grindavík í vetur og þeir unnust allir. Það verður að teljast frábært því Grindvíkingar eru með gott lið. Þeir hafa hins vegar verið óstöðugir í leik sínum. Þeir áttu tvo góða leiki í Síkinu í þessari rimmu en verða að bíta í það súra epli að tapa báðum naumlega. Bestur í liði gestanna í kvöld var Siggi Þorsteins með 20 stig, sjö fráköst og fimm stoðsendingar. Ingvi Guðmunds var með 16 stig og þeir Bullock og Dagur Kár 15.
Sigur Tindastóls var sterkur liðssigur þar sem margir leikmenn skiluðu fínu framlagi. Hvað stigaskor varðar voru það helst Arnar, Hester og Axel sem voru að finna körfuna en allir tíu leikmenn Stólanna sem komu við sögu í leiknum komust á blað. Axel fór vel með skotin sín og skoraði jafnan á mikilvægum augnablikum og þá virðist Arnar oftar en ekki geta dúkkað upp með körfu þegar á þarf að halda. Grindvíkingar einbeittu sér að því að loka á Arnar og sömuleiðis gekk Degi Kár illa að komast í góð færi fyrir Grindvíkinga. Grindvíkingar fráköstuðu öllu meira en Stólarnir og munaði þar kannski mest um að á tímabili hirtu þeir sóknarfráköst eins og þeir væru að tína ber að hausti.
Erfiður leikur að baki og frábært hjá Stólunum að skella Grindvíkingum í þremur leikjum. Okkar menn eru því búnir að tryggja sig inn í fjögurra liða úrslitin líkt og lið KR og geta nú safnað kröftum á meðan að viðureignir Hauka og Keflvíkinga annars vegar og ÍR og Stjörnunnar hinsvegar, dragast aðeins á langinn. Það er því óljóst hverjir verða andstæðingar Stólanna en líklegast er að það verði annað hvort lið KR eða ÍR. Heimaleikjaréttinn eigum við gegn KR en ekki gegn ÍR, en Breiðhyltingar gætu verið í vondum málum ef Ryan Taylor verður dæmdur í leikbann eins og ýmsir telja líklegt eftir viðskipti hans og Hlyns Bærings.
En hvað um það. Áfram gakk og áfram Tindastóll!