- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll og Valur áttust við í 16 liða úrslitum Maltbikarsins í kvöld og var leikið á Hlíðarenda. Stólarnir léku vel í kvöld og náðu strax ágætri forystu. Valsmenn reyndu að klóra sig inn í leikinn fyrir hlé en Stólarnir gáfu ekkert eftir og síðan var bara sýning í síðari hálfleik. Sigtryggur Arnar og Hester voru frábærir í leiknum með alls 66 stig en lokatölur voru 70-104.
Arnar og Hester fóru fyrir sínum mönnum í fyrsta leikhluta og Stólarnir yfir, 11-20, að honum loknum. Helgi Rafn, sem var góður í kvöld, kom Stólunum í 11-24 með því að setja niður annað vítið sitt en þá svaraði Króksarinn Sigurður Páll með þristi. Næstu sex stig voru Stólanna, staðan 14-30, en í kjölfarið náðu Valsmenn sér á strik og áttu 13-2 kafla og skyndilega munaði aðeins fimm stigum á liðunum, 27-32. Þá fóru Tindastólsmenn að leita inn á Hester og þá var ekki að sökum að spyrja, Stólarnir náðu að svara fyrir sig síðari fimm mínútur annars leikhluta, spiluðu góða vörn og Hester og Arnar sáu um stigaskorið. Staðan 34-46 í leikhléi eftir að Arnar gerði fimm síðustu stigin.
Valsmenn þurftu að hefja þriðja leikhluta af krafti en það voru þá Stólarnir sem gerðu fyrstu ellefu stigin og munurinn orðinn 23 stig og ljóst að Valsmenn voru ekki líklegir til stórræðanna. Næstu mínútur var munurinn yfirleitt 18-22 stig og það eina sem olli Stólunum vandræðum var að Pétur var kominn með fjórar villur. Friðrik bar þá boltann upp og gerði það ágætlega. Stólarnir spiluðu fína vörn og staðan 53-70 þegar þriðji leikhluti kláraðist.
Aftur voru það Stólarnir sem byrjuðu betur og þeir voru fljótt komnir með 25 stiga forystu og gáfu ekkert eftir á lokamínútunum. Þá kom sparibaukurinn Helgi Margeirs inn síðstu þrjár mínúturnar og hann náði að taka tvö 3ja stiga skot sem hann að sjálfsögðu setti niður stuðningsmönnum Stólanna til mikillar gleði. Síðara skotið setti hann niður á síðustu sekúndu leiksins og innsiglaði frábæran 34 stiga sigur.
Lið Tindastóls spilaði vel í kvöld og það var aðeins í öðrum leikhluta sem heimamenn náðu að spyrna við. Það var skarð fyrir skildi hjá Valsmönnum að Austin Bracey var afar daufur í leiknum, var stigalaus eftir 15 mínútna leik í fyrri hálfleik og kom ekkert við sögu í síðari hálfleik. Uraid King var bestur Valsara með 17 stig og 14 fráköst en gekk ekki heill til skógar síðustu mínútur leiksins. Hjá Stólunum komst Chris Caird ekki í takt við leikinn og var stigalaus en það kom ekki að sök því í kvöld lék allt í höndunum á Arnari sem gerði 35 stig í leiknum en kappinn var 6/9 í 3ja stiga skotum og 7/7 af vítalínunni. Hester var ekki langt undan með 31 stig en báðir voru með 35 framlagspunkta. Liðsheildin var engu að síður frábær því flestir leikmenn skiluðu stigum á töfluna og varnarleikurinn lengstum til fyrirmyndar.
Nú er svo bara að krossa fingur og vonast eftir heimaleik í átta liða úrslitum Maltbikarsins. Áfram Tindastóll!