- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Það var boðið upp á frekar kostulegan leik í Síkinu í kvöld þegar lið Þórs frá Þorlákshöfn mætti á Krókinn. Bæði liðin tefldu fram splunkunýjum Könum og voru báðir talsvert ryðgaðir við fyrstu sýn. Þórsarar stóðu í Tindastólsmönnum langt fram í annan leikhluta en þegar Stólarnir stigu upp í varnarleiknum þá sprungu gestirnir á limminu og heimamenn biðu kærlega að heilsa. Lokatölur 92-58.
Stólarnir byrjuðu með Brandon Garrett á bekknum en urðu fyrir áfalli strax eftir eina mínútu þegar Pétur Birgis meiddist og kom ekki meira við sögu. Arnar og Viðar voru heitir framan af og fyrsti leikhluti virtist ætla að þróast yfir í skotkeppni á milli Arnars og Halldórs Garðars í liði Þórs en Stólarnir réðu ekkert við hann í fyrri hálfleik en þá gerði kappinn 22 stig. Jafnt var á flestum tölum í fyrsta leikhluta og vítaskot frá Björgvini og Caird urðu til þess að Stólarnir leiddu 21-20 þegar annar leikhluti hófst.
Garrett gerði fyrstu stigin í honum af vítalínunni en honum gekk frekar brösulega að koma boltanum ofan í körfu gestanna næstu mínúturnar og hafa sennilega einhverjir stuðningsmenn Stólanna fengið myndina af Samba upp í hugann þegar þeir fylgdust með honum að störfum – enda kappinn ekki ólíkur í laginu, 206 sm og tággrannur. Hann skilaði 13 stigum og níu fráköstum þegar upp var staðið eftir 40 tíma ferðalag á Krókinn og eina æfingu. Emil Karel og þó einkum Halldór sáu til þess að Þórsarar héngu inni í leiknum fyrsta stundarfjórðunginn, staðan þá 33-32, en þá kviknaði loksins á Chris Caird. Arnar kom muninum í tíu stig, 44-34, og í hálfleik munaði enn tíu stigum eftir flotta körfu frá Helga Rafni. Staðan 48-38.
Tindastólsmenn hertu á vörninni og lokuðu algjörlega á Halldór Garðar í þriðja leikhluta. Friðrik Stefáns opnaði leikhlutann með þristi og smá saman breikkaði bilið milli liðanna. Þórsarar voru heillum horfnir. Nýr Kani þeirra, Dj Balentine II, var nánast farþegi og vonandi býr meira í kappanum en hann sýndi í Síkinu í kvöld – svona Þórsara vegna. Hann setti niður eitt skot í leiknum og tók tvö fráköst. Það er skemmst frá því að segja að lið Þórs gerði 4 (fjögur) stig í þriðja leikhluta og hentu eiginlega inn handklæðinu síðustu mínútu leikhlutans. Stólarnir náðu 27 stiga forystu, staðan 69-42.
Fjórði leikhluti var því nánast formsatriði í kvöld. Arnar fékk sína fimmtu villu snemma í leikhlutanum og Friðrik sá um að bera upp boltann. Helgi Margeirs kom inn á og náði að mata Garrett á nokkrum troðsluvænum sendingum sem kappinn skilaði niður en síðan lönduðu Stólarnir sigrinum af öryggi og settust einir á topp Dominos-deildarinnar.
Sem fyrr segir voru Kanar beggja liða nýkomnir til sinna liða og eðlilega mikið um feila í sóknarleik liðanna í kvöld. Garrett er allt öðruvísi leikmaður en Hester og spennandi verður að sjá hann þegar hann verður kominn í takt við félaga sína og farinn að mæta sér líkari leikmönnum. Arnar og Caird voru stigahæstir í kvöld með 20 stig og sex fráköst hvor. Helgi Rafn og Garrett voru báðir með 13 stig, miðið hjá Axel var brenglað en kappinn hirti átta fráköst og átti fjórar stoðsendingar líkt og Arnar. Aðrir skiluðu sínu vel.
Næsti leikur Tindastóls er hér heima nú strax á sunnudaginn þegar botnlið Hattar kemur í heimsókn. Leikurinn hefst venju samkvæmt kl. 19:15.