- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Það var þvílík veisla sem Tindastólsmenn buðu upp á í Laugardalshöllinni í dag þegar liðið bar sigurorð af meistaraliði KR og vann þar með fyrsta stóra titilinn í sögu Tindastóls. Allir leikmenn voru uppnumdir af leikgleði, jákvæðni, baráttu og ekki síst samkennd þannig að það hljóta allir sem á leikinn horfðu að hafa smitast af smá krókódílarokki. Lið KR átti aldrei svar, aldrei séns, gegn Stólunum í dag. Tindastóll var yfir frá fyrstu mínútu og unnu að lokum annan stærsta sigurinn í sögu bikarúrslita KKÍ. Lokatölur 69-96.
Stuðningsmenn beggja liða komu vel stemmdir til leiks þó svo að stemningin virtist hálfu geggjaðri Stólamegin – enda ekki á hverjum degi sem Skagfirðingar eiga möguleika á að styðja sitt lið í Laugardalnum. Það virtist smita leikmennina því þeir hófu leik af gríðarlegum krafti með varnarleikinn í fyrirrúmi. Eftir þrjár og hálfa mínútu áttu Vesturbæingar enn eftir að finna körfuna og staðan 0-14 fyrir Tindastól þar sem Hester, Viðar og Arnar sáu um stigin. Björn Kristjánsson kveikti líf í KR skútunni og gerði 11 fyrstu stig liðsins og þeir minnkuðu muninn í 13-19 á kafla þar sem Stólarnir voru að ná áttum eftir að Arnari var kippt á bekkinn eftir að hafa fengið þrjár villur á fyrstu fimm mínútum leiksins. Tveir þristar frá Bjögga kipptu KR-ingum niður á jörðina og Stólunum aftur í bílstjórasætið. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 16-28.
Pétur og Hester fóru fyrir Stólunum í upphafi annars leikhluta og eftir tveggja mínútna leik var munurinn orðinn 17 stig, 19-36, og Vesturbæingar í vondum málum. Þeir áttu hreinlega engin svör við glorhungruðum og titlaþyrstum Tindastólsmönnum. Martin róteraði liðinu af miklum krafti og braut þar með hinar óskráðu íslensku reglur um róteringar – það er að ekki megi nota fleiri en sjö til átta leikmenn í leikjum sem skipta máli! Það komu allir ferskir og fínir til leiks, allir Stólarnir virtust vita til hvers var ætlast og engin minnimáttarkennd fyrir meisturunum í KR. Þetta var hreint og beint frábært að sjá. Þegar flautað var til leikhlés var staðan 33-57.
Reiknað var með því að lið KR tæki sig saman í andlitinu í upphafi þriðja leikhluta og gerði atlögu að Tindastólsmönnum. Bæði lið höfðu orðið fyrir áföllum á síðustu vikum. KR-ingar verið með menn í meiðslum í vetur en Jón Arnór var mættur til leiks á ný. Þeir höfðu hins vegar skipt um Kana fyrir leikinn í dag, sendu Jenkins heim og nýr leikmaður, Brandaon Penn, spilaði sinn fyrsta leik í dag og var eðlilega ekki alveg með á nótunum. Lið Tindastóls var án stórskyttunar Chris Caird sem neyddist til að leggja skóna á hilluna í vikunni eftir þrálát meiðsli.
KR-ingar settu tvo þrista niður í byrjun þriðja leikhluta en nú var það Pétur sem nánast svaraði öllum aðgerðum Vesturbæinga. Þegar Jón Arnór náði loks að minnka muninn í 18 stig tók Martin strax leikhlé til að róa sína menn aðeins og minna sína leikmenn á það sem máli skipti. Vörnina. Í kjölfarið svaraði Pétur með þristi, Brynjar Þór gerði þrist fyrir KR í næstu sókn en aftur svaraði Pétur með þristi. Munurinn hélst í 18-22 stigum út þriðja leikhluta og leiftursókn KR var það með frestað. Staðan 53-72.
Íleggja frá Garrett og síðan sitt hvor þristurinn frá Bjögga og Arnari litu dagsins ljós áður en KR komst á blað í fjórða leikhluta. Munurinn 27 stig og nú var kristaltært að Maltbikarinn var á leiðinni norður á Krók. Stuðningsmenn Tindastóls voru enda kampakátir og klöppuðu og sungu nánast allan leikinn og gáfu ekki þumlung eftir, ekki frekar en leikmenn Tindastóls, þangað til lokaflautið gall. Þá ærðust að sjálfsögðu allir og gleðin var hrein og tær.
Lið Tindastóls var frábært í leiknum. Hester og Arnar gáfu tóninn í byrjun leiks og þær fáu mínútur sem Arnar spilaði í fyrri hálfleik þá klikkaði hann ekki á skoti. Hann endaði með 20 stig og frákastahæstur Tindastólsmanna með 7 fráköst líkt og bakvarðarfélagi hans, Pétur Birgis, sem gerði 22 stig í leiknum, stal þremur boltum og áttti átta stoðsendingar. Pétur var eðlilega valinn maður leiksins. Hester var með 14 stig, Bjöggi 11, Hannes 7 og Viðar 6 en aðrir minna. Það var aðeins Helgi Margeirs sem komst ekki á blað í hópnum í dag en KR-ingar voru ekkert að leyfa honum að skjóta.
Til hamingju með Maltbikarinn Tindastólsfólk nær og fjær!